Aðilar sem höfðu hagsmuni af afnámsáætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta lögðu sig mjög hart fram um að fá upplýsingar um með hvaða hætti hún yrði, áður en þær voru gerðar opinberar. Maður sem sagðist starfa fyrir fjárfesta við það að afla vitneskju um kröfur föllnu bankanna og íslensk fjárfestingartækifæri bauð íslenskum einstaklingi sem hafði aðgang að upplýsingum um afnámsáætlunina tugi milljóna í mútugreiðslur gegn því að fá skjöl eða aðrar hagnýtar upplýsingar afhentar.

Heimildarmenn Viðskiptablaðsins, sem vilja ekki koma fram undir nafni, segja að umræddur maður hafi komið frá Bandaríkjunum til Íslands síðasta vetur og sagst starfa við upplýsingaöflun fyrir fjárfesta (e. business intelligence). Sá hafi upphaflega verið áhugasamur um kröfur í slitastjórnum föllnu bankanna.

„Hann kom til Íslands og hitti fólk í vetur. Hann var mikið að spyrja um einstakar persónur og hvernig landslagið væri í pólitík og efnahagsmálum. Síðan var hann mjög áhugasamur um þessa vinnu við afnám hafta. Á þessum tímapunkti, í þessari heimsókn gerði hann ekki meira með það,“ segir einn heimildarmanna Viðskiptablaðsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .