Baugur hefur ekki hætt við að gera formlegt kauptilboð í bresku verslunarkeðjuna House of Fraser, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Gengi hlutabréfa House of Fraser lækkað um rúmlega 4% í morgun og fór af stað orðrómur á breskum fjármálamarkaði um að Baugur hefði ákveðið að ganga frá samningaborðinu.

Talsmaður Baugs í Bretlandi segir hins vegar að fyrirtækið hafi ekki hætt við að gera tilboð í House of Fraser og að áfram sé unnið að áreiðanleikakönnun og að ferlið væri vel á veg komið.

Baugur á 9,5% hlut í House of Fraser og hefur gert óformlegt kauptilboð í fyrirtækið að virði 351 milljón punda, sem samsvarar um 48 milljörðum króna.