Baugur Group hefur keypt 9,5% hlut í bresku stórvöruverslunarkeðjunni House of Fraser, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðisins. Kaupin verða tilkynnt til kauphallarinnar í London í dag. Talið er að Baugur hafi farið inn á genginu 130 pens en lokagengið í gær var 135,25 pens á hlut. Kaupverð hlutarins nemur því um 30 milljónum punda, eða tæpum fjórum milljörðum íslenskra króna.

Baugur átti 10,1% hlut í House of Fraser, sem félagið seldi árið 2004 og nam söluhagnaður félagsins rúmlega 1,3 milljörðum króna á þáverandi gengi. Kaupverð eignarhlutarins var í kringum tveir milljarðar á sínum tíma en Baugur seldi hlutinn fyrir um 3,4 milljarða króna.

Baugur átti 22% hlut í The Big Food Group, sem var móðurfélag Iceland-verslunarkeðjunnar og Booker-verslananna, árið 2004 og voru uppi getgátur þá um að félagið myndi einnig selja þann hlut. Hins vegar varð raunin önnur og félagið keypti og afskráði The Big Food Group í samvinnu við eignarhaldsfélagið Fons og aðra íslenska fjárfesta. Iceland-verslunarkeðjan var nýlega endurfjármögnuð, sem gerði eigendum félagsins kleift að greiða sér tæpa átta milljarða króna í arð.

Breski fjárfestingasjóðurinn Apax átti í viðræðum við House of Fraser um að kaupa félagið og afskrá það fyrr á þessu ári. En Apax ákvað að hætta við yfirtökuna og gera ekki formlegt kauptilboð í verslunarkeðjuna. Gengi bréfa House of Fraser hríféll í kjölfarið og lækkaði verðgildi bréfanna um rúmlega 10% í kjölfarið. House of Fraser var verðmetið á 300 milljónir punda, sem samsvarar 38 milljörðum króna, áður en Apax hætti við kauptilboðið. Breski fjárfestirinn Philip Green, sem er eigandi tískuvörufyrirtækisins Arcadia og verslunarkeðjunnar BHS, hefur einnig lýsti yfir áhuga á að kaupa House of Fraser. Green keypti hlut Baugs í Arcadia þegar hann tók yfir félagið árið 2002.

Baugur hefur einnig verið orðaður við hugsanlega yfirtöku á bresku verslunarkeðjunni Woolworths, en félagið á um 10% hlut í félaginu.