Breski kaupsýslumaðurinn Gerald Ratner er að vinna að kauptilboði í bresku skartgripaverslunarkeðjuna Signet í samvinnu við Baug, segir í frétt breska blaðsins Sunday Express í dag.

Blaðið telur Ratner og Baug ætlað að skipta upp starfsemi keðjunnar og mun Ratner taka yfir H. Samuel og Baugur Ernest Jones.

Sunday Express segir kauptilboð væntanlegt í lok árs.

Framkvæmdarstjóri Signet Group, Terry Burman, sagði í ágúst síðastliðnum að skartgripaverslanir fyrirtækisins í Bretlandi væru ekki til sölu, en yfirlýsingin kom í kjölfar áhuga Baugs og Gerald Ratner á verslununum.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins telur Baugur að breski hluti Signet gæti verið áhugavert félag til að sameina Goldsmiths-verslunum Baugs.