Baugur Group er nú orðaður við hugsanleg kaup á enn einu fyrirtækinu í Bretlandi, samkvæmt frétt í Financial Sunday Express. Baugur var nýverið orðaður við hugsanleg kaup á Marks & Spencer, en nú er Baugur sagður leiðandi aðili í slag um tískuvörufyrirtækið Jane Norman sem sett var í sölu fyrr á þessu ári.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins í London eru fjárfestingasjóðirnir Barclays Private Equity, Bridgepoint PPM Ventures og West Coast Capital, sem er í eigu Tom Hunter, einnig nefndir til sögunnar. Sömu aðilar eru nefndir í frétt Sunday Express og er Baugur sagður vera einn af þessum sex hópum fjárfesta sem hafa átt fundi með stjórnendum Jane Norman og rætt hugsanleg tilboð í verslanakeðjuna.

Nánar er fjallað um hugsanleg kaup í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.