Þýsku byggingarvöruversluninni Bauhaus hefur verið veitt fyrirheit um úthlutun byggingarlóðar í svokölluðum Höllum við rætur Úlfarsfells austan Vesturlandsvegar, segir í fréttatilkynningu frá Borgarráði Reykjavíkur.

Bauhaus sótti um lóðina 16. janúar síðastliðinn en samkvæmt erindi fyrirtækisins hyggst það reisa um 20.000 fermetra verslunarhúsnæði á 5,5-6,0 hektara lóð.

Erindi fyrirtækisins hafði áður fengið jákvæða umfjöllun í Skipulagsráði Reykjavíkurborgar 8. febrúar síðastliðinn og verður áfram unnið að deiliskipulagi svæðisins í samræmi við fyrirheitið, segir í tilkynningunni.

Byggingarréttinum verður úthlutað þegar deiliskipulag fyrir lóðina hefur tekið gildi og er skrifstofustjóra Framkvæmdasviðs falið að ganga til viðræðna um söluverð byggingarréttarins.

Eftir afgreiðslu Skipulagsráðs bárust athugasemdir frá Mosfellsbæ og Smáragarðs/BYKO en borgarráð ákvað að gefa fyrirheitið í dag eftir ítarlega yfirferð á athugasemdunum, segir í tilkynningunni.

Á fundi ráðsins í dag var lögð fram ítarleg greinargerð Stjórnsýslu- og starfsmannasviðs Reykjavíkurborgar, en niðurstaða hennar er sú að framkomnar athugasemdir eigi ekki við rök að styðjast og að ekki verði séð að neitt sé því til fyrirstöðu að Reykjavíkurborg úthluti Bauhaus umræddri lóð.