BBC fréttastofan áætlar að um 23 milljarðar Bandaríkjadala hafi týnst, verið stolið eða ekki rétt taldir fram í Írak. Þetta er niðurstaða rannsóknar fréttastofunnar á hagnaði verktaka sem unnið hafa að endurbyggingu í Írak.

Heimildir BBC eru frá bandarískum og íröskum stjórnvöldum. Samkvæmt frétt BBC um málið er ólíklegt að fyrirskipun um að þagga málið niður verði aflétt meðan ríkisstjórn George Bush heldur um stjórnartaumana í Hvíta húsinu. Enginn bandarískur verktaki hefur verið kærður fyrir svik eða annað misferli í Írak enn sem komið er.

Einn viðmælenda BBC segir að þarna megi vera um að ræða mesta stríðsgróða sögunnar. Upphæð illa fengins fjár sem renni í vasa bandarískra verktaka sé svívirðileg. BBC greina frá því að Hazem Shalaan, sem var skipaður varnarmálaráðherra Íraks 2004, hafi laumað 1,2 milljörðum Bandaríkjadala út í gegn um ráðuneytið. Varnarmálaráðuneytið keypti gömul stríðstól frá Póllandi en taldi fram í bókhaldinu kostnað við að kaupa fyrsta flokks vopn. Peningarnir sem fengust en aldrei var eytt fóru svo inn á reikning Shalaan og samstarfsmanna hans.

Shalaan var dæmdur í fangelsi en flúði úr landi áður en kom til fullnustu dómsins. Hann er nú eftirlýstur af Interpol.