Langanesbyggð, Vopnafjarðarhreppur, íslenska ríkið, þýska fyrirtækið Bremenport og verktaka- og ráðgjafafyrirtækið Efla standa að viljayfirlýsingu byggingu stórskipahafnar. Upphaflega átti að skrifa undir plaggið í byrjun apríl en þá birtust fyrstu fréttir úr Panama-skjölunum og allt fór í hnút. Nú er beðið eftir að stjórnvöld gefi sér tíma í að skrifa undir yfirlýsinguna en alls er óvíst hvenær það verður.

Fyrirhuguð bygging stórskipahafnarinnar hefur valdið töluverðum hræringum í sveitarstjórnarmálum því meirihlutinn í Langanesbyggð féll vegna málsins í vetur.

Elías Pétursson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, segir að sér lítist ágætlega á verkefnið.

„Ég tel að þarna séu gríðarleg tækifæri fyrir landið allt ef þetta heppnast og vel tiltekst, en það eru ofboðslega mörg "ef" þangað til," segir Elías. „Þetta er bara hugmynd en klárlega hugmynd, sem verið er að eyða töluverðum peningum í."

Í Langanesbyggð búa ríflega 500 manns og stór hluti íbúanna býr á Þórshöfn, sem er aðeins um 10 kílómetrum frá Finnafirði. Elías segir að verkefnið sé mjög stórt fyrir svona lítið þorp og þess vegna sé hann svolítið stressaður.

„Það versta sem við höfðum verið að lenda í hér á Íslandi er að búa til svo miklar væntingar að heil samfélög frjósi og allir fari að bíða eftir því að eitthvað stórt gerist," segir Elías og bæti því við að þess vegna finnist honum mikilvægt að horfa á þetta sem tækifæri, sem hafi enn ekki orðið að veruleika. Nauðsynlegt sé að tempra væntingar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .