Benedikt Árnason skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu hefur verið ráðinn svæðisstjóri fyrir Ísland og aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Norræna fjárfestingarbankanum í Helsingfors. Benedikt mun bera ábyrgð á samskiptum við viðskiptavini bankans hér á landi og annast lánveitingar og tengsl við innlendan og alþjóðlegan fjármálamarkað vegna lána NIB til íslenskra aðila. Hann tekur við starfinu af Guðmundi Ólasyni, sem ráðinn hefur verið framkvæmdastjóri fjárfestingarfélagsins Milestone ehf., Reykjavík.

Norræni fjárfestingarbankinn er fjölþjóðleg fjármálastofnun í eigu Norðurlanda auk Eistlands, Lettlands og Litháens sem gerðust aðilar að bankanum í upphafi árs 2005. Bankinn veitir lán á markaðskjörum til fjárfestinga sem fela í sér gagnkvæma hagsmuni fyrir aðildarlöndin, bæði innan þeirra og utan. NIB fjármagnar útlánastarfsemi sína með lántökum á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði og nýtur besta lántrausts, AAA/Aaa.
NIB er einn stærsti erlendi lánveitandinn á Íslandi og nema lán bankans hér á landi u.þ.b. 640 milljón evrum eða yfir 53 milljörðum króna. Útborguð lán bankans til íslenskra lántakenda á síðasta ári námu að fjárhæð rúmlega 20 milljörðum króna sem er sú hæsta í sögu bankans. Stærstu lántakendur NIB á Íslandi eru orkufyrirtæki, önnur stór fyrirtæki bæði í einkaeigu og opinberri, sveitarfélög og lánastofnanir.

Benedikt er hagfræðingur að mennt. Hann lauk M.A og M.B.A prófum frá University of Toronto að loknu Cand. Oecon. prófi frá Háskóla Íslands. Hann hefur starfað í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti frá 1996, síðast sem skrifstofustjóri fjármálamarkaðar og staðgengill ráðuneytisstjóra. Í ráðuneytinu hefur Benedikt m.a. unnið að einkavæðingu, raforkumálum og erlendri fjárfestingu auk málefna fjármálamarkaðar.
Benedikt tekur við starfinu hjá NIB 1. apríl næstkomandi.