Dægurverð á 95 oktana bensíni hækkaði talsvert á markaði í Rotterdam í gær samkvæmt tölum á heimasíðu breska viðskiptablaðsins Financial Times. Í lok dags kostaði tonnið 1.063 dali og hækkaði um 29 dali, 2,8%, innan dagsins. Bensínverð hefur farið hækkandi á ný undanfarna daga eftir að hafa dottið niður fyrir 1.000 dali/tonn fyrir viku síðan. Það var í fyrsta skipti síðan um miðjan mars sem tonnið kostaði minna en 1.000 dali en strax daginn eftir hækkaði verð í 1.020 dali.

Þá hefur verð á framvirkum RBOB-samningum með bensín einnig flökt talsvert að undanförnu. Þannig hækkaði það um rúm 5 sent/bandarískt gallon í gær eftir að hafa lækkað um 10 sent á tveimur dögum í síðustu viku. Það sem af er degi hefur verð á RBOB-samningum lækkað um rúm 4 sent samkvæmt vef Bloomberg.