Eigendur borgarjeppa, eða Chelsea-traktora eins og þeir eru stundum kallaðir í Bretlandi, og annarra ökutækja sem eyða miklu bensíni geta búið sig undir aukna skattheimtu, en samkvæmt fjárlögum ríkisstjórnar Verkamannflokksins mun vegaskattur sem er lagður á slíkar bifreiðar tvöfaldast fyrir næstu kosningar. Gordon Brown, fjármálaráðherra, mun kynna fjárlögin á miðvikudag og að sögn breskra fjölmiðla eru svokallaðar grænar áherslur áberandi og skattheimtu beitt til þess knýja fram minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda.

Þeir sem aka um á bifreiðum eins og Range Rover og BMW X5 geta átt von því að borga tvöfalt meira í vegaskatt en áður, en gert er ráð fyrir að skatturinn verði kominn í fjögur hundruð pund eftir tvö ár. Skattheimtan mun bitna á ríflega tvö hundruð þúsund manns sem hafa frá því í fyrra keypt borgarjeppa sem menga mikið. Þeir sem keyptu slíka bifreiðar fyrir apríl á síðasta ári sleppa þó með skrekkinn. Á sama tíma og skattheimta á slíka bíla kemur til með aukast mun skattheimta á eigendur sparneytnari bíla minnka.