Reiðhjólaverslunin Berlin flutti um helgina að Háaleitisbraut 12 þar sem Atlantsolía er með þjónuststöð og Olís var áður til húsa.
Þar er nú starfrækt bæði reiðhjólaverslun og verkstæði þar sem m.a. eru gerð upp eldri hjól.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir hartnær tveimur árum síðan keypti Atlantsolía fimm bensínstöðvar Olís sem síðarnefnda fyrirtækið þurfti að selja frá sér samkvæmt skilyrðum Samkeppniseftirlitsins fyrir kaupum Haga á olíufélaginu.

Þar með lokaði verslun Olís á bensínstöðinni en nú opnar ný starfsemi í húsinu sem lætur ekki mikið yfir sér gengt Lágmúlanum þar sem Nova, Nettó og Lyfja eru til að mynda með starfsemi, en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er undir húsnæðinu kjallari sem er talsvert stærri um sig en golfflötur húsnæðisins sjálfs.

„Við fluttum stutta leið úr Ármúlanum yfir á Haáleitisbrautina og erum hæstánægð með nýju staðsetninguna,“ segir Jón Óli Ólafsson, eigandi verslunarinnar. „Við sérhæfum okkur í klassískum, hversdagslegum hjólum og ævintýrahjólum fyrir þá sem vilja fara í styttri eða lengri ferðalög sem og fylgihlutum og vörum sem henta til daglegs brúks á hjólum.“

Berlín býður upp á úrval af hjólamerkjum sem passa vel fyrir einstaklega sem vilja nýta sér hjól sem sinn ferðamáta og þann lífstíl sem þeir eru að leita eftir.

„Öll hjólin okkar hafa sinn karakter með fallegar línur og liti. Verkstæði okkar tekur við öllum gerðum af reiðhjólum til viðhalds og viðgerðar. Við gerum upp eldri hjól, setjum saman hjól og sérpöntum vörur fyrir viðskiptavini,“ segir Jón Óli ennfremur.

Opnunartímar Berlínar eru alla virka daga kl. 11-18 og á laugardögum kl. 11-16. Í versluninni er einnig veitingasala á drykkjum þar sem gestir, gangandi og hjólandi geta fengið sér hressingu.