Lánshæfiseinkun Berkshire Hathaway, fjárfestingafélags Warrens Buffetts, hefur verið færð niður úr AAA í Aa2 af lánshæfismatsfyrirtækinu Moody's. Það er kannski enn sárara fyrir Buffett vegna þess að hann á 20% hlut í eignarhaldsfélagi Moody's.

Með þessu fylgir Moody's í fótspor annars lánshæfismatsfyrirtækis Fitch Ratings sem hafði sömuleiðis tekið einkun Berkshire Hathaway níður úr þreföldu A. Gert er ráð fyrir að þriðja lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's lækki sömuleiðs einkun  Berkshire Hathaway en þeir hafa sett félagið á athugunarlista. Það að lækka einkun eykur fjármögnunarkostnað Berkshire Hathaway en félagið nýtur gríðarlegrar virðingar meðal fjárfesta.

Hagnaðurinn minnkar

Hagnaður Berkshire Hathaway lækkaði um 62% á síðasta ári og markaðsvirði félagsins lækkaði um tæplega 10%. Kannski ekki svo slæmt segja margir fjárfestar en eigi að síður var síðasta ár það versta síðan 1965 þegar Buffett tók það yfir. Hann er þá mannlegur efir allt saman.

Moody's hefur einnig lækkað einkun Berkshire's National Indemnity, tryggingafélags í eigu Buffetts. Allt hlýtur þetta að svíða fyrir véfréttina frá Omaha eins og Buffett er gjarnan kallaður en líklega ræður engin við markaðina eins og þeir eru núna.

Berkshire Hathaway á í yfir 80 fyrirtækjum, allt frá flugvélasmíði til skartgripagerðar en helmingur hagnaðar félagsins kemur frá tryggingastarfsemi. Þau félög sem hafa valdið mestu tjóni eru American Express og Goldman Sachs.