Innanlandssala á lambakjöti var 5,2% meiri árið 2016 en árið áður samkvæmt nýjum tölum Matvælastofnunar. Alls seldust 6.797 tonn innanlands í fyrra og hefur salan ekki verið meiri frá árinu 2007. Samdráttur var í sölunni í þrjú ár þar á undan. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landssamtökum Sauðfjárbænda.

Komast á bragðið

Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda fagnar þessum viðsnúningi en bendir á að þetta gerist ekki af sjálfu sér. Margir samverkandi þættir hafi stuðlað að þessum góða árangri. Verð á lambakjöti sé mjög hagstætt hér á landi og vöruþróun að komast á skrið. „Aldrei hefur verið ráðist í öflugra og markvissara kynningarstarf gagnvart erlendum ferðamönnum en núna og árangurinn af því er ótvíræður.“ Þá séu Íslendingar að verða ennþá betur meðvitaðir um mikilvægi þess að matvara sé framleidd á hreinan og siðrænan hátt í sátt við samfélag og náttúru. „Íslenska lambakjötið er laust við erfðabreytt fóður, hormóna eða vaxtahvetjandi lyf og bragðgæðin eru ótvíræð,“ er haft eftir Þórarni í fréttatilkynningunni.

Hann bætir við að það sé jákvætt að þetta gerist á sama tíma og þau horfa upp á vandræði á sumum erlendum mörkuðum fyrir aukaafurðir og ódýrari bita vegna viðskiptaþvingana Rússa á Ísland. „Sauðfjárbændur hafa þegar tekið á sig 600 milljóna króna skell vegna þessara utanaðkomandi áhrifa með afurðaverðlækkun í haust,“ tekur hann jafnframt fram.