Árið 2004 var atburðaríkt og jákvætt ár fyrir Norræna fjárfestingarbankann (NIB). Fjárhagsleg afkoma var hin besta í sögu bankans. Viðunandi umfang náðist í nýjum lánveitingum þrátt fyrir daufa fjárfestingareftirspurn á Norðurlöndum og í Evrópu yfirleitt. Hagnaður NIB á árinu nam 172 milljónum evra samanborið við 151 milljón evra árið 2003. Þetta jafngildir aukningu um 13,9%. Hreinar vaxtatekjur jukust á árinu og námu 163 milljónum evra samanborið við 155 milljónir árið áður.

Niðurstöðutölur efnahagsreiknings bankans námu í árslok 16,4 milljörðum evra (2003:16,7). Lausafjárstaðan var 2 876 milljónum evra (2 744). Stjórn bankans hefur lagt til að greiddur verði út arður til eigendanna á árinu 2004, Norðurlandanna fimm, sem nemur 55 milljónum evra (41,3) af hagnaði ársins 2004.

Útborguð ný lán námu á árinu 1 348 milljón evrum (1 841) og fjárhæð nýrra lánssamninga nam 1 657 milljónum (1 859). Heildarútlán NIB við árslok námu 10 279 milljónum evra (10 522). Lækkunin skýrist fyrst og fremst af lækkandi gengi bandaríkjadals auk þess sem nokkuð dró úr útlánum í heild.

Ný skuldabréfaútgáfa bankans á árinu nam 1 808 milljónum evra (3 258). Að teknu tilliti til framlenginga á eldri skuldabréfaflokkum nam ný fjármögnun bankans á tímabilinu 2 484 milljónum evra. Í lok árs 2004 nam heildarfjármögnun NIB 12 355 milljónum evra (13 087). Bankinn gaf í þriðja sinn út í einni alþjóðlegri útgáfu í apríl skuldabréf að fjárhæð 1 milljarður bandaríkjadala til fimm ára. Útgáfan fékk góðar viðtökur meðal fjárfesta og skilaði NIB hagstæðum kjörum.

Útlánasafn bankans er áfram í háum gæðaflokki. Á árinu voru aðeins 0,7 milljón evra lagðar á sértækan afskriftareikning til að mæta hugsanlegu útlánatapi. Bakfærslur vegna fyrri framlaga á afskriftareikning útlána námu hins vegar 4,5 milljónum evra.

Þrjú ný aðildarlönd

Eigendahópur NIB stækkaði 1. janúar 2005 þegar Eystrasaltslöndin þrjú urðu fullgildir aðilar að bankanum. Hinn 11. febrúar 2004 undirrituðu fulltrúar ríkisstjórna Norðurlanda og Eystrasaltslanda nýjan samning um NIB sem var staðfestur af löndunum átta á árinu 2004. Þannig urðu Eistland, Lettland og Litáen í byrjun árs 2005 aðilar að NIB á sömu forsendum og eigendurnir sem fyrir voru, Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð. Aðild Eystrasaltslandanna er mikilvægur áfangi í sögu bankans.

Útlán til framleiðsluiðnaðar og innviðaframkvæmda
Bankinn tók á árinu þátt í fjármögnun 38 fjárfestingarverkefna á Norðurlöndum. Þriðjungur útborgaðra lána var til fyrirtækja í framleiðsluiðnaði en fjórðungur til orkufyrirtækja. Bankinn borgaði út lán til fjárfestinga í orkugeiranum á öllum Norðurlöndum. Sérstaklega má þar nefna ný útlán til fjárfestinga í orkuverkefnum á Íslandi þar sem NIB tók þátt í fjármögnun stórra raforkuvera - bæði vatnsafls- og jarðhitavirkjana.

Í lok árs 2004 átti bankinn útistandandi lán í 30 löndum utan Norðurlanda. Skrifað var undir samninga um samanlagt 30 ný lán til verkefna utan Norðurlanda á árinu. Þessi lán voru einkum veitt til innviðaframkvæmda, fyrst og fremst innan orkugeirans og til samgangna og fjarskipta. Útlán til Eystrasaltslandanna voru einkum til umhverfisverkefna og innviðaframkvæmda.

NIB veitir lán og ábyrgðir vegna verkefna utan aðildarlandanna innan sérstaks lánaramma. Úflutningsverkefnaramminn, PIL, nýtur sérstakra ábyrgða aðildarlanda bankans. Hinn 1. júlí 2004 var útlánaramminn fyrir PIL aukinn úr 3 300 milljónum evra í 4 000 milljónir evra. Hækkun útlánarammans felur í sér aukna möguleika fyrir bankann til fjármögnunar verkefna utan aðildarlandanna.

Umhverfisverkefni

Lán til umhverfisverkefna eru snar þáttur í starfsemi bankans. Á árinu 2004 samþykkti bankinn 26 ný umhverfislán að fjárhæð 300 milljónir EUR. Af heildarfjárhæð útborgaðra lána á árinu námu umhverfislán nálægt 17 %.

NIB gegnir mikilvægu hlutverki í Northern Dimension Partnership (NDEP) sem er samstarf ESB, Rússlands, NIB, EBRD, EIB, Alþjóðabankans og einstakra landa um fjármögnun brýnna umhvefisframkvæmda í norðvesturhluta Rússlands. Í júlí 2004 tók NIB við formennsku í stjórn NDEP. NIB hefur forystu fyrir undirbúningi, skipulagningu og fjármögnun sjö af þrettán umhverfisverkefnum á vegum NDEP. Heildarfjárhæð verkefna á áætlun NDEP nemur meira en 2 milljörðum evra. Bankinn heldur áfram að efla starfsemi sína í norðvestur Rússlandi innan ramma NDEP samstarfsins. Á árinu hóf bankinn útborgun lána til einkarekinna iðnfyrirtækja við vötnin Ladoga og Onega til umhverfisfjárfestinga. Í upphafi eru þessi lán einkum til verkefna innan pappírsiðnaðarins sem er mikill mengunarvaldur á þessu svæði en þaðan falla öll vötn til Eystrasalts.

Stjórn bankans tilnefndi í september sl. Johnny Åkerholm sem nýjan forstjóra NIB. Hann tekur við starfinu 1. apríl 2005 af Jóni Sigurðssyni sem hefur gegnt starfi forstjóra NIB frá því í apríl 1994.