Mercedes-Benz seldi 1.650.010 bíla árið 2014 og er þetta besta söluár framleiðandans frá upphafi. Söluaukningin nam 12,9% milli ára, en fjórði ársfjórðungur var besti fjórðungur í sögu félagsins, rétt eins og desember en aldrei hafa selst fleiri bílar í einum mánuði í 128 ára sögu félagsins.

Athygli vekur að sala á flaggskipi Mercedes-Benz, S-Class, jókst um 82,2% milli ára.

Sala í Kína jókst um 29,1% og er orðinn næst stærsti markaður bílaframleiðandans. Aukningin í Bandaríkjunum nam 5,7% en það er stærsti markaður Mercedes. Salan jókst í Evróu um 9,4%.

Rússland erfitt

Dieter Zetsche forstjóri Mercedes-Benz sagði í viðtali við Wall Street Journal í fyrradag að hann hefði nokkrar áhyggjur á stöðunni í Rússlandi, sem er mikilvægur markaður fyrir Mercedes-Benz. Einnig bjóst hann við minni aukningu í Kína en undanfarin ár.