*

föstudagur, 30. júlí 2021
Innlent 25. febrúar 2021 11:55

Besta ár Krónunnar og Elko frá upphafi

Tekjur Krónunnar og Elko jukust um 18% á síðasta ári sem var metár hjá báðum fyrirtækjum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Matvöruverslunin Krónan, átti sitt besta ár frá upphafi sé litið til bæði rekstrarhagnaðar og tekna. Rekstrarhagnaður (EBIT) Krónunnar nam 1,6 milljörðum króna á síðasta ári og hækkaði um 294 milljónir króna frá árinu 2019 sem var einnig metár. Hagnaður Krónunnar eftir skatta og fjármagnsgjöld námu 903 milljónum króna.

Tekjur Krónunnar, sem rekur 26 verslanir undir merkjum Krónunnar, Kr og Kjarval, hækkuðu um 18% milli ára og námu 43,1 milljarði króna árið 2020, samanborið við 36,5 milljarða króna tekjur árið 2019, samkvæmt ársreikningi Festi, móðurfélags Krónunnar.

Sjá einnig: Festi hagnaðist um 2,5 milljarða 

Tekjur raftækjaverslunarinnar Elko, sem fellur einnig undir Festi samstæðuna, jukust um rúm 18% milli ára og námu 13,1 milljarði króna á síðasta ári. Rekstrarhagnaður Elko nam 785 milljónum króna sem er tvöfalt meira en árið 2019. Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, sagði í uppgjörstilkynningu í gær að þetta væri besta ár Elko frá upphafi þrátt fyrir að næststærsta verslun félagsins í Leifsstöð hafi verið lokuð í tíu mánuði. 

Fækkun ferðamanna bitnaði hins vegar á rekstri N1 en tekjur olíufyrirtækisins drógust saman um 18% milli ára og námu 31,1 milljarði króna. Rekstrarhagnaður félagsins lækkaði úr tæpum tveimur milljörðum króna árið 2019 í 652 milljónir króna á síðasta ári. 

Stikkorð: Krónan N1 Festi Elko