Alþjóðlega samheitalyfjafyrirtækið Actavis Group skilaði 6,3 milljarða króna hagnaði á árinu 2005 og 2,8 milljarða hagnaði á fjórða ársfjórðungi. Tekjur samstæðunnar námu 45,2 milljörðum króna á árinu og hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 11,5 milljörðum króna. Árið er það besta í sögu félagsins. Hefur framlegð félagsins á fjórða ársfjórðungi og fyrir árið í heild sinni aldrei verið hærri.

Í ársuppgjörinu má í fyrsta sinn sjá tekjur frá starfsemi Actavis í Norður-Ameríku, sem samanstendur í dag af fyrirtækjunum Amide Pharmaceuticals og samheitalyfjastarfsemi fyrirtækisins Alpharma Inc. Að auki styrkti Actavis stöðu sína ennfrekar í Evrópu, auk þess að skapa sér góða stöðu á Bandaríkjamarkaði, með kaupum á átta fyrirtækjum á árinu.

Tekjur á árinu 2005 jukust um 24,9% og voru 556,2 milljónir evra samanborið við 453,2 milljónir árið 2004. Sala eigin vörumerkja jókst um 22,5%, var 294,1 milljón evra samanborið við 240,2 milljónir evra 2004. Sala til þriðja aðila dróst saman um 9,1%, nam 149,7 milljónum evra samanborið við 164,8 milljónir árið á undan. Sala í Norður-Ameríku nam 62,9 milljónum evra fyrir árið 2005 og 30,4 milljónir á fjórða ársfjórðungi. Samdráttinn má að mestu rekja til samanburðar við umfangsmikla markaðssetningu á lyfinu Ramipril, í þrem lyfjaformum, á fyrsta ársfjórðungi 2004. Undirliggjandi vöxtur tekna samstæðunnar var 4,3% án tillits til fyrirtækjakaupa eða gengisbreytinga.