24,5% landsmanna segir koma til greina að kjósa Besta flokkinn ef hann byði fram í næstu alþingiskosningum. Þetta er niðurstaða könnunar MMR sem unnin var fyrir Viðskiptablaðið en spurt var hvort til greina kæmi að kjósa Besta flokkinn ef hann byði fram í næstu alþingiskosningum. Besti flokkurinn á meira fylgi að fagna meðal karla en 29% þeirra segja til greina koma að kjósa Besta flokkinn, en einungis 21% kvenna. Ekki er mikill munur á fylgi eftir búsetu en 26% fólks á höfuðborgarsvæðinu segir til greina koma að kjósa Besta flokkinn og 24% þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins.

Yngra fólk líklegra til að kjósa Besta

Besti flokkurinn könnun
Besti flokkurinn könnun
© None (None)

Stækka má myndina með því að smella á hana.


Yngra fólk er líklegra til að styðja Besta flokkinn ef hann byði fram á landvísu. Í aldurshópnum 18 til 29 ára segjast 52% koma til greina að kjósa Besta flokkinn en einungis 9% í aldurshópnum 50 til 67 ára. Besti flokkurinn nýtur mest fylgis meðal námsmanna eða 42% og meðal ófaglærða um 37%. Minnst fylgis nýtur Besti flokkurinn hjá bændum og sjómönnum eða 16% og hjá skrifstofufólki 17%. Stuðningur við Besta flokkinn er 34% hjá þeim sem lokið hafa grunnskólanámi, 17% hjá þeim sem hafa lokið starfsnámi. 34% þeirra sem hafa lokið bóklegu framhaldsnámi segja koma til greina að kjósa flokkinn, 24% þeirra sem hafa lokið verklegu framhaldsnámi, 19% þeirra sem hafa lokið sérskólum á háskólastigi og 23% þeirra sem hafa lokið háskólanámi.

18,5% aðspurðra tóku ekki afstöðu í könnuninni sem var framkvæmd dagana 8. til 11 mars og yfir 900 manns svöruðu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.