Aðilar vinnumarkaðarins hafa í mörg ár rætt um að jafna lífeyrisréttindi á almenna og opinbera vinnumarkaðnum. Með SALEK-samkomulaginu, sem undirrtað var í byrjun vetrar, var ákveðið að klára þessa vinnu. Skömmu fyrir jól greindi Viðskiptablaðið frá því að samkomulag væri í augsýn.

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og fyrrverandi formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, fjallar um málið í grein sem hann skrifar í Viðskiptablaðið í dag. Þar veltir hann meðal upp þeirri spurningu hvort ekki væri betra fyrir almenna launþega að fá launahækkun í vasann frekar en að hækka skylduiðgjald í lífeyrissjóð.

„Hvað áhrif hefur hækkun skylduiðgjalds í lífeyrissjóð úr 12% í 15,5% af launum?," skrifar Gunnar. „Lífeyrisréttindi munu aukast en benda má á að í mörgum tilvikum getur hækkun iðgjalda leitt til þess að eftirlaun verði á mörkum þess að vera of mikil. Sem dæmi má nefna að einstaklingur sem fær laun í takt við almenna launaþróun, eins og lesa má úr skattframtölum, og greiðir 15,5% lífeyrisiðgjald á aldrinum 25 til 66 ára eða í 42 ár ávinnur sér rétt á ævilöngum lífeyri sem nemur um 91% af lokalaunum og um 89% af meðallaunum. Það fer eftir aðstæðum hjá hverjum og einum hvað eftirlaun þurfa að vera mikil en almennt er talið að ásættanleg eftirlaun séu á bilinu 60% til 80% af lokalaunum.

Gunnar segir að aðilar á vinnumarkaði hafi verið öflugt bakland lífeyrissjóðanna til margra ára og að þeir eigi hrós skilið fyrir það.

„Undanfarin ár hefur verið vaxandi þungi í umræðu á þeirra vegum um jöfnun lífeyrisréttinda sérstaklega eftir efnahagshrunið 2008-2009. Lítil umræða hefur hins vegar farið fram um það hvort heppilegt sé að jafna réttindin upp á við eins og ákveðið er með SALEK samkomulaginu.

Mikilvægt er að sú umræða fari fram og þeir sem eiga að fá peningana fái tækifæri til að tjá sig um hvort heppilegra sé að 3,5% launahækkun komi í vasann eða sem hækkun skylduiðgjalds í lífeyrissjóð. Ef seinni kosturinn verður fyrir valinu þarf einnig að ræða hvernig iðgjaldinu verður ráðstafað."

Hægt er að lesa grein Gunnars Baldvinssonar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .