Í nýrri skýrslu bandaríska fjárfestingarbankans Morgan Stanley er því haldið fram að það séu betri kaup í skuldatryggingum Glitnis á eftirmarkaði (e. credit default swaps) en tryggingum Landsbankans.

Í skýrslunni eru bankarnir tveir bornir saman og segja skýrsluhöfundar að það sé ekkert vit í því að tryggingar Landsbankans seljist á betri kjörum en tryggingar Glitnis eins og raunin sé í dag.

Í skýrslunni kemur fram að höfundar hennar, Christine Miyagishima og Jackie Ineke, hafi mikið kynnt sér íslenskan fjármálamarkað, en þær telja að tækifæri felist í því að markaðurinn telji Landsbankann með betri skuldatryggingar en Glitnir. Skýrsluhöfundar telja að Glitnir sé minna háður íslensku hagkerfi en Landsbankinn og þar af leiðandi stöðu krónunnar og aðstæðum á hlutabréfamarkaði. Bent er þó á að uppbygging eigendahópa bankanna sé í báðum tilvikum ófullkominn.

Það er álit skýrsluhöfunda að það sé hægt að selja skuldatryggingar Glitnis með 24,5 punkta álagi en rétt sé að kaupa skuldatryggingar Landsbankans með 25 punkta álagi. Til langs tíma litið telja sérfræðingar Morgan Stanley að eðlilegt sé að það sé 10 punkta munur á skuldatryggingum bankanna.

Þess má geta að í skýrslu annars bandarísks banka, Merill Lynch, frá því í nóvember síðastliðnum var tekin önnur afstaða í þessum samanburði. Þar sagði: "Áhættusækni Glitnis hefur aukist undanfarið," og bætt var við: "Við teljum að Glitnir hafi misst sérstöðu sína sem áhættuminnsti íslenski bankinn. Á síðustu mánuðum hefur áhættusækni Glitnis aukist umtalsvert sem veldur þessari afstöðubreytingu."

Merill Lynch segir að kröftug skuldabréfaútgáfa Glitnis undanfarið sé til vitnis um að aukna áhættusækni. "Allir íslensku bankarnir drógu saman seglin eftir að neikvæð umræða um þá náði hámarki síðastliðið vor, en nú lítur út fyrir að þeir hafi endurheimt sjálfstraustið og séu komnir með lyst á áhættu og yfirtökum á nýjan leik," sögðu sérfræðingar Merill Lynch.

Þessi afstaða Merill Lynch til Glitnis markaði ákveðinn viðsnúning en sérfræðingar bandaríska bankans höfðu fram að þessu talið Glitni standa best íslensku bankanna að vígi.

Það sem Morgan Stanley horfir til í sinni skýrslu er að starfsemi Glitnis sé betri gagnvart lánshæfi, bankinn sé minna háður hlutabréfamarkaðinum, lægri rekstrarkostnaður, betri landfræðileg dreifing lána, færri lán til eignarhaldsfélaga og minna háður fyrirtækjamarkaði og tryggari staða gagnvart krónunni.