Spenntir Tesla-aðdáendur hafa komið sér fyrir í röðum fyrir utan útibú fyrirtækisins í þeim tilgangi að leggja inn sína fyrstu greiðslu á Tesla Model 3 bílinn, sem verður kynntur í fyrsta sinn í dag.

Bíllinn verður ekki til sölu í að minnsta kosti tvö ár eða svo, að mati sérfræðinga - en bíllinn sem kynntur verður í dag er eins konar frumgerð. Viðskiptavinirnir geta greitt allt að þúsund Bandaríkjadali inn á bifreiðina í dag, og verða þá með þeim fyrstu til að eignast eintak af henni.

Spenningurinn stafar af því að með því að greiða inn á bílinn nú verður hann allt að 7,5 þúsund dölum ódýrari þegar kaupandinn fær hann svo í hendurnar. Þetta er vegna þess að ríkisniðurgreiðslur á rafbílum gætu runnið út áður en bíllinn fer í framleiðslu, en með því að leggja niður pening á bílinn telst hann keyptur undir aðstæðum ríkisniðurgreiðslna.

Model 3 er fyrsti fjöldaframleiðslubíll fyrirtækisins Tesla Motors. Hingað til hefur fyrirtækið selt bílana Model S og Model X, en þeir eru gerðir eftir pöntunum og ekki fjöldaframleiddir.

Sérfræðingar telja að verð Model 3 bílsins gæti verið í kringum 30-35 þúsund dollara, sem eru rúmlega 4,5 milljónir króna. Markmið Elon Musk, stofnanda Tesla, var að gera langdrægan og kraftmikinn rafbíl aðgengilegan fyrir alla - og honum gæti tekist það með Model 3.