Sala á nýjum bílum í desember 2016 dróst saman um 16,2% ef tekið er mið af sama tímabili ári fyrr. Nýskráðir fólksbílar á þessu tímabili voru 706 talsins á móti 842 ári áður og nam samdrátturinn því 136 bílum. Ef litið er til ársins 2016 voru bílaleigubílar 48% af heildarnýskráningum fólksbíla. Þetta kemur fram í frétt Bílgreinasambandsins.

Helsta skýringin á þessu samdrætti í nýskráningum í desember er að færri bílaleigubílar voru nýskráðir í desember síðastliðnum miðað við sama mánuð árið 2015.

Ef að árið 2016 er tekið saman var aukning um 31,4% á nýskráningum fólksbíla miðað við árið 2015. Í heildina voru skráðir 18,442 fólksbílar á Íslandi á árinu sem er nýliðið.

Bílaleigubílar voru 48% af heildarnýskráningum fólksbíla á síðasta ári eða 8.846 bílar.

Þó að talsverð aukning hafi verið á sölu nýrra bíla til einstaklinga og fyrirtækja á síðasta ári, er það mat Bílgreinasambandsins að sá markaður eigi nokkuð í landi með að ná eðlilegu jafnvægi. Til að mynda er meðalaldur bíla enn of hár, að mati Bílgreinasambandsins, samanborið við nágrannalönd okkar.

„Meðalaldur fólksbíla hér á landi er liðlega 12 ár en gamall bílafloti er bæði óöruggari og mengar meira en þörf væri á. Það er því mikið hagsmunamál þjóðfélagsins alls að yngja bílaflotann upp með öruggari og hagkvæmari bílum,“ er einnig tekið fram í fréttinni.