Tekjur ríkissjóðs af bílaleigum námu 1.160 milljónum króna fyrstu 10 mánuði síðasta árs. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Inni í þessari tölu er virðisaukaskattur, tekjuskattur, vörugjöld og leyfisgjald.

Stærsti hluti þessarar upphæðar er vegna vörugjalda eða 767 milljónir sem skýrist af því að margar bílaleigur voru að endurnýja bílaflota sína. Árið 2007 námu tekjur ríkissjóðs af bílaleigum 631 milljón á verðlagi ársins 2013 og má því segja að tekjur ríkisins af bílaleigum hafi tvöfaldast á síðustu sjö árum.