Breskir ferðalangar í Frakklandi eru nú varaðir við að nota svokallað umhverfisvænt eldsneyti (95-E10) á frönskum bensínstöðvum. Sagt er að það geti eyðilagt bíla frá árinu 2000 og eldri sé það notað.

Breska blaðið Telegraph greinir frá þessu og segir að Frakkar séu nokkuð meðvitaðir um að þetta eldsneyti megi aðeins nota á ákveðnar gerðir bílvéla. Hafa þeir verið varaðir við að 95-E10 eldsneytið sé ekki það sama og blýslaust Euro 95 bensín sem fæst víða um Frakkland.

Byrjað var að dreifa þessu nýja eldsneyti um Frakkland eftir 1. apríl á þessu ári. Bretar sem mikið aka um Frakkland eru hins vegar lítt meðvitaðir um þetta. Frakkar hafa hinsvegar sent út aðvarandir til almennings og telja að 40% franska bílaflotans geti ekki notað þetta eldsneyti.

Hafa samtök bíleigenda í Bretlandi nú brugðist við og varað breskt ferðafólk við að setja 95-E10 eldsneytið á bíla sína, en það inniheldur 90% venjulegt blýslaust bensín og 10% etanól. Etanólið er mjög tærandi og getur m.a. tært í sundur eldsneytisleiðslur og tanka í bílum frá 2000 og eldri og eyðilagt vélar. Flestir nýir bílar eru aftur á móti með eldsneytistanka úr plasti, en um þriðjungur breskra bíla er eldri en frá árinu 2000 eða samtals tæplega 9,6 milljón bílar.

Evrópusambandið gerir ráð fyrir að íblöndun á etanóli verði aukin á næstu árum til að hækka oktantölu eldsneytis sem á að leiða til minni mengunar. ESB gerir ráð fyrir að fyrir árið 2013 verði allt bensín að innihalda 5-10% etanól.

Ráðgert er að hérlendis verði byrjað á að blanda etanóli sem framleitt verður í Svartsengi í 3% hlutfalli í bensín. K. C. Tran, framkvæmdastjóri Carbon Recycling International ehf. segir að þar sé stuðst við núverandi reglugerðir Evrópusambandsins sem miði við 3% íblöndunarhlutfall vegna krafna um minni mengun bíla. Metanólinu verður blandað við bensín á bensínstöðvum Olís í þrem hlutum á móti hundrað, en Olís er hluthafi í CRI.