Sala á nýjum bílum frá janúar til og með júlí í ár helst nánast í hendur við sama tímabil árið 2012 en fjöldi nýskráðra fólksbíla á þessu tímabili eru 5439 bílar. Í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu segir að nýskráningum á tímabilinu fjölgi um 11 á milli ára, eða um 0,2%. Í júlí voru 635 fólksbílar og er það fjölgun um 61 bíl, eða 10,6% miðað við sama mánuð árið 2012.

Í tilkynningunni er haft eftir Özuri Lárussyni, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins, að nýskráningar séu hægri uppleið en töluvert sé þó enn í land með að það náist að snúa við þróun hvað varðar aldursamsetningu á bílaflota landsmanna sem sé orðin með þeim elstu í Evrópu. Það jákvæða sé að það sé aukning í nýskráningum á bílum hér á landi á meðan enn halli undan fæti hvað varðar nýskráningar í Evrópu.

Hann segir bílaleigur eiga stóran hluta af nýskráningum bíla en þó megi merkja aukningu í sölu á nýjum bílum til einstaklinga enda endurnýjunarþörfin orðin mikil.