Val á bíl ársins 2012 stendur nú yfir á Íslandi en valið hefur legið niðri síðustu þrjú ár þar sem bílasala hrundi í kjölfar eftir efnahagshrunsins. Bandalag íslenskra bílablaðamanna (BÍBB) stendur að valinu og bílablaðamenn vinna nú að því að reynsluaka og skoða þá nýju bíla sem til greina koma við valið. Bílar sem eru gjaldgengir í forval á bíl ársins 2012 eru bílar sem hafa komið á markað hér á landi frá því í ágúst 2010.

Bílunum er skipt í þrjá flokka og hefur skiptingin í sambærilegu vali í Evrópu verið höfð sem lauslegt viðmið og eru níu bílar nú komnir í úrslit. Í flokki minni fólksbíla eru það Ford Fiesta, Ford Focus og Audi A1. Í flokki stærri fólksbíla eru BMW 520, Volvo S60 og Kia Sportage komnir í úrslit. Í flokki hybrid- og metanbíla eru það Lexus CT 200, Volkswagen Passat og Toyota Auris.

Dómnefndin tekur tillit til útlits og hönnunar bílanna, aksturseiginleika, afkastagetu, eldsneytisnotkunar og visthæfi, öryggisbúnaðar og endursöluvirðis svo ýmislegt sé nefnt.Veittur verður verðlaunaskjöldur fyrir sigurvegara í hverjum flokki en stigahæsti bíllinn í heildina hlýtur Stálstýrið og sæmdarheitið Bíll ársins 2012 . Tilkynnt verður um valið 2. september nk .