Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna eru ekkert að víkja sér undan því að vinna mikið þessa dagana eins og sjá má af því að þingfundir hafa verið margir og langir undanfarna daga og þeir ólíkt virkari í þingstörfunum en stjórnarliðar.

Þeir eru hins vegar sammála um að láta ekki hvað sem er yfir sig ganga – allra síst þegar það gengur gegn ákvæðum þingskapa, sem eru þau lög sem þinginu ber að starfa eftir

Þetta segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi nefndarmaður í forsætisnefnd Alþingis í erindi til fjölmiðla í kvöld en Birgir segir forseta Alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur hafa reynt að halda áfram þingfundi eftir kl. 20, án þess að um það væri samkomulag á milli þingflokka og án þess að tillaga um slíkt hafi verið borin upp og samþykkt af þinginu.

Nokkuð hart var tekist á í þingsal í kvöld þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar fóru fram á að fundi yrði slitið og umræðum haldið áfram eftir helgi. Þannig hélt Birgir því fram að fundurinn væri ólöglegur þar sem ekki væri gert ráð fyrir kvöldfundum á óreglulegum fundardögum án samþykktar þingsins. Ásta Ragnheiður, forseti Alþingis, sagðist ekki túlka þingskaparlög með þeim hætti.

Eftir miklar deildur fór það þó svo að forseti þingsins frestaði 2. umræðu um Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar fram á mánudag og sleit fundi.

Í erindi Birgis segir að þingfundir á laugardögum séu undantekning og nær óþekktir í störfum þingsins.

„Fyrir slíkum frávikum þurfa að vera sérstaklega sterk rök og er auðvitað æskilegast að slíkar ákvarðanir séu teknar í sátt,“ segir Birgir.

„Ef ekki næst samkomulag getur forseti borið ákvörðunina undir þingið og ræður þá afl atkvæða. Til þess að slík atkvæðagreiðsla fari fram þarf a.m.k. einfaldur meirihluti þingmanna að vera viðstaddur og meirihluti viðstaddra að styðja tillöguna. Undan því verður ekki vikist.“

Þá minnir Birgir á að þingmenn stjórnarandstöðunnar hafi hvað eftir annað lýst vilja sínum til að greiða fyrir þingstörfum með því að Icesave-umræðunni verða slegið á frest meðan mál sem tengjast fjárlögum verða rædd og send til nefnda. Þá hafi þeir jafnframt boðist til þess að semja um stíf tímamörk í því sambandi „svo ráðherrar, forysta þingsins og stjórnarliðar þurfi ekki að óttast neinar sérstakir tafir af þeim sökum,“ eins og Birgir orðar það í erindi sínu.

„Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa hins vegar ekki fallist á að falla frá málfrelsi sínu í Icesave-umræðunni, innan þeirra marka auðvitað sem þingsköp setja,“ segir Birgir.

„Í því sambandi eru stöðugt að koma fram nýjar upplýsingar og sjónarmið sem krefjast umræðu – og skortur á skýringum, röksemdum og svörum frá ríkisstjórn og stjórnarþingmönnum einfaldar í sjálfu sér ekki málið.“

Þá segir Birgir jafnframt að það sé þingmönnum stjórnarandstöðunnar engin sérstök ánægja að ræða um þingsköp eða fundarstjórn forseta, en þeir áskilji sér rétt til að gera það þegar tilefni gefst til.

„Slík tilefni hafa því miður verið alltof mörg undanfarna daga, enda hefur gengið dæmalaust illa að fá upplýsingar um skipulag þingstarfanna, viðveru ráðherra og fleiri þætti sem skipta máli  í sambandi við framgang umræðunnar,“ segir Birgir.