Birgir Jónsson hefur verið ráðinn forstöðumaður mannauðslausnasviðs Advania. Hann mun leiða fimmtíu manna hóp sem sinnir þróun, ráðgjöf, sölu og þjónustu á sviði mannauðslausna.

Birgir hefur að mestu starfað að verkefnum sem tengjast umbreytingum, endurskipulagninu og uppbyggingu. Hann hefur gegnt stjórnunarstörfum hjá fyrirtækjum á borð við Íslandsbanka-FBA, Össur, Iceland Express, Infopress Group, Odda og Wow air. Hann er auk þess trommari þungarokkshljómsveitarinnar Dimmu.

Hann er 43 ára og gamall og hefur búið og starfað í London, Hong Kong, Búdapest og Búkarest. Hann er giftur Lísu Ólafsdóttur, verslunareiganda, og saman eiga þau fjóra syni.

„Hópurinn sem ég kem inn í er gríðarlega öflugur og lausnaframboðið sömuleiðis enda er þarna um að ræða heildarlausnir á sviði mannauðsmála“ segir Birgir. „Tækifærin sem við stöndum frammi fyrir eru fjölmörg og spennandi, og það verður án nokkurs vafa gaman að tækla þau með hópnum.“