Icelandair byrjaði í upphafi vikunnar á umfangsmikilli og fjölþættri markaðs- og kynningarherferð hér á landi en auglýsingar frá félaginu hafa verið áberandi í bæði ljósvaka- og prentmiðlum.

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, segir í samtali við Viðskiptablaðið að félagið hafi í fyrra verið búið að undirbúa markaðsherferð vegna nýrra sæta og afþreyingarkerfis í vélum Icelandair en hætt við í kjölfar bankahrunsins og einbeitt sér að erlendum markaði.

„Núna finnst okkur hins vegar tími til að einbeita okkur að Íslendingum," segir Birkir Hólm og bætir því við að félagið sé einnig að minna á rúmlega 70 ára sögu sína hér á landi.

„Við höfum fengið góð viðbrögð við afþreyingarkerfinu í vélum okkar, sérstaklega frá fjölskyldufólki og við viljum að fólk geti borið saman verð og þjónustu þegar það hugar að því að fljúga. Við viljum sýna fram á að við erum sterkt og rótgróið íslenskt flugfélag sem ætlar að halda áfram að veita Íslendingum úrvalsþjónustu."