*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 1. desember 2013 13:53

Birna: „Vona að aðgerðirnar skili tilætluðum árangri“

Bankastjóri Íslandsbanka fagnar því að niðurstaða sé komin í aðgerðir ríkisins. Sérfræðingar meta kostnað bankans.

Guðni Rúnar Gíslason
Haraldur Guðjónsson

Birna Einarsdóttir fagnar því að niðurstaða sé komin í skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar en segir að mikil vinna sé framundan í bankanna vegna aðgerðanna. „Ég fagna því að niðurstaða sé komin í aðgerðir ríkisstjórnarinnar við leiðréttingu á verðtryggðum lánum heimilanna því óvissan hefur verið slæm. Gríðarleg vinna er framundan hjá starfsfólki bankans í tengslum við framkvæmd þessara aðgerða en leiðréttingin kemur til með að hefjast um mitt næsta ár,“ segir Birna. Hún vonast ennfremur til þess að aðgerðirnar bæti fjárhag í landinu sem ætti að koma samfélaginu og fjármálakerfinu til góða. Þetta kemur fram í skriflegu svari Birnu til Viðskiptablaðsins við fyrirspurn um áhrif væntanlega skuldaðagerða.

Hvað bankann sjálfan varðar segir Birna að sérfræðingar hans séu að skoða þau en að ekki sé hægt að segja meira til um það núna.„Sérfræðingar okkar eru að skoða hver áhrifin verða á bankann en ekki er hægt að segja frekar til um þau á þessari stundu. Það er þó ljóst að vinnan við þessar aðgerðir auka kostnað bankans tímabundið. Aukin skattheimta á starfandi fjármálafyrirtæki bætist ofan á miklar skattgreiðslur fyrirtækjanna í dag en á fyrstu níu mánuðum ársins höfum við greitt yfir sjö milljarða í skatta og aðrar álögur frá ríkinu,“ segir Birna.