Bresk skattayfirvöld hafa í fyrsta skipti birt opinberlega lista yfir einstaklinga og fyrirtæki sem yfirvöld segja að hafi af ásetningi ekki greitt þá skatta og gjöld sem þeim ber að greiða. Birtingin kemur í kjölfar rannsóknar skattayfirvalda sem nær aftur til ársins 2010. Allir þeir sem eru á listanum skulda ríkinu að minnsta kosti 25.000 pund.

Meðal fyrirtækjanna sem nefnd eru á listanum er verktakafyrirtæki og framleiðandi prjónafatnaðar. Hæstu sektina fær hins vegar vínsölufyrirtækið The Trade Beverage Company, en því ber að greiða breska ríkinu ríflega 290.000 pund, andvirði um 58 milljóna króna. Þá eru nokkrir einstaklingar nefndir, þar á meðal hárgreiðslumaður, matvörukaupmaður og pípari.

Markmiðið með birtingu listans er að auka þrýsting á þá sem skulda keisaranum það sem keisaranum ber og einnig að draga úr líkunum á því að fólk stingi undan skatti.