Formenn stjórnarandstöðuflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, gagnrýndu Icesave-samningana harðlega á Alþingi í dag.

Umræður um frumvarp fjármálaráðherra um Icesave-ríkisábyrgð standa nú yfir á Alþingi.

Bjarni Benediktsson sagði m.a. að greinargerð frumvarpsins væri í löngum kafla eins og samantekt á málflutningi viðsemjenda okkar í þessu máli. „Málflutningur þeirra er að stórum hluta nú orðinn málflutningur og meginrök ríkisstjórnarinnar," sagði hann.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði m.a. að samningarnir stefndu þjóðinni í verulega hættu, jafnvel í þrot og ógnuðu sjálfstæði hennar. Hann sagði að það væri í raun undarlegt að þurfa að færa rök fyrir einhverju jafn augljósu.

Íslendingar einir beri ábyrgð

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra sagði á hinn bóginn að Icesave-samningarnir væru ekki óviðráðanlegir; hvorki fyrir ríkissjóð né þjóðina. Gylfi sagði enn fremur að Íslendingar bæru einir ábyrgð á Icesave. „Það komu engir aðrir við sögu við stjórn þessarar óheillaferðar Landsbankans til Bretlands og Hollands og nú súpum við seyðið af því."

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra mælti fyrir Icesave-frumvarpinu í morgun. Gert er ráð fyrir því að fyrsta umræðan standi yfir í allan dag og fram á kvöld.