Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formannsframbjóðandi flokksins, sagði í ræðu á landsfundi flokksins í morgun að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess.

Hann sagði að þrátt fyrir bankahrunið hefðu engin þau atriði breyst  „sem ávallt hafa ráðið hagsmunamati okkar í þessu máli," sagði hann. Þar vísað hann til sjávarútvegsins og landbúnaðarins. Íslendingum væri því betur borgið utan ESB.

Landsfundarfulltrúar ræða nú drög að ályktun um Evrópumál. Þeir sem hafa tekið til máls eru neikvæðir í garð Evrópusambandsins. Margir taka þó undir ályktunardrögin en þar er mælt með þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn að ESB.

Bjarni Benediktsson tók undir meginefni þeirrar tillögu.

Ýmis álitamál einungis skýrð í viðræðum

Í upphafi ályktunardraganna sem rædd eru segir: „Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið að aðild að Evrópusambandinu þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar en jafnframt er talið mikilvægt að sífellt sé í skoðun hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið í samstarfi Evrópuríkja."

Síðan segir: „Endurnýjað hagsmunamat hefur ekki leitt til grundvallarbreytinga á afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Kostir aðildar tengjast helst gjaldmiðilsmálum og ljóst að ýmis álitamál verða aðeins skýrð í viðræðum. Sterk lýðræðisleg rök mæla engu að síður með því að þjóðin fái að skera úr um svo stórt og umdeilt mál og að það sé ekki eingöngu á forræði stjórnmálaflokkanna."

Þá segir að landsfundur undirstriki þá eindregnu stefnu Sjálfstæðisflokksins að ekki verði gefin eftir til annarra þjóða eða samtaka þeirra yfirráð yfir fiskveiðiauðlindinni og að standa beri vörð um innlenda matvælaframleiðslu.

„Landsfundur telur að setja skuli ákvæði í stjórnarskrá og almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og þær lágmarkskröfur sem gera á um stuðning við mál á Alþingi og við þjóðaratkvæðagreiðslu.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkir að fela forystu flokksins að leita samkomulags á Alþingi um að á næsta kjörtímabili fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Verði gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræður við Evrópusambandið, skal fara fram á vettvangi Alþingis þverpólitísk vinna við gerð vegvísis í Evrópumálum. Þar skulu meðal annars verða skilgreind markmið, leiðir og samningskröfur komi til aðildarumsóknar."