„Ég hef áttað mig á því undanfarið að kannski hef ég, ómeðvitað, verið kominn í of mikla vörn, meiri vörn en ég áttaði mig á,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann er í viðtali í Fréttatímanum í dag þar sem hann m.a. fer yfir slakt gengi flokksins í skoðanakönnunum síðustu vikur og aukið fylgi eftir því sem styst hefur í Alþingiskosningar.

Bjarni segir m.a. miklu máli skipta að fólk finni að maður sé að meina það sem maður segi. Því geti verið erfitt að koma til skila úr varnarstöðu.

„Og af þeim sökum hefur mér ekki tekist nægilega vel að koma málstað flokksins á framfæri með sannfærandi hætti líkt og skoðanakannanir sýndu,“ segir hann.

Íhugaði afsögn

Flokkurinn hefur undanfarið mælst með 19-23% fylgi í skoðanakönnunum. Samkvæmt könnun sem MMR vann fyrir Viðskiptablaðið og birt var í síðustu viku þar sem spurt var um fylgi almennings til einstakra stjórnmálamanna og það hvort að viðkomandi myndi frekar kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna Kristjánsdóttir væri formaður flokksins. Þar kom fram að nær helmingur þeirra sem ætla sér að kjósa Framsóknarflokkinn í komandi kosningum myndi örugglega eða líklega kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna væri formaður flokksins og leiddi hann í gegnum Alþingiskosningar. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 19-23% fylgi í skoðanakönnunum. Bjarni sagði svo í viðtali við RÚV sama dag og blaðið kom út að hann væri að íhuga stöðu sína innan flokksins.

Í könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Morgunblaðið og blaðið birtir í dag mælist flokkurinn með 24,4% fylgi og eykst það um 5,5% frá fyrri könnun.