Sæstrengur gæti orðið verulega ábatasamur fyrir þjóðarbúið. En ákvörðun um lagningu hans verður að ráðast af heildarmati, þ.e. sala orku um sæstreng þarf að ráðast af því hvort hann bæti lífskjör þjóðarinnar, að sögn Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Bjarni ræddi m.a. um lagningu og sölu á orku um sæstreng á ársfundi Landsvirkjunar, sem nú stendur yfir. Bjarni sagði að úttekt hafi verið unnin um efnahagsleg áhrif sæstrengs. Þótt ekki sé enn tímabært að taka af skarið um lagningu sæstrengsins megi ekki bíða of lengi með að taka ákvörðunina.

Bjarni sagði flutning á orku um sæstreng á hafsborni hafa orðið efnahagslega raunhæfan á síðustu árum, ekki síst nú þegar orkuskortur er að verða raunverulegt vandamál víða í Evrópu. Íslendingar verði að gera sér grein fyrir verðmæti orkunnar og það sé mikilvægt að verðleggja hana í samræmi við það.

Áður en ákvörðun verður tekin um lagningu sæstrengsins sagði Bjarni niðurstöðu þurfa að liggja fyrir um nokkra þætti. Þar á meðal þurfi að skoða hver áhrifin verði á möguleika á uppbyggingu í orkufrekum iðnaði, að skapa sátt um orkunýtingarkosti, að skoðað verði hver áhrifin verði á orkuverð á Íslandi, hvaða fjárfestingar eru nauðsynlegar og hverjar horfurnar eru á orkumörkuðum.