Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mun eiga í viðræðum við Sigurð Inga Jóhannsson um áframhaldandi samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þetta sagði Bjarni á blaðamannafundi á Bessastöðum eftir að hafa talað við Ólaf Ragnar Grímsson forseta lýðveldisins.

Þingflokkur Framsóknarflokksins hafði samband við Bjarna fyrr í dag og óskaði eftir því að ræða við hann. Þá hafði Bjarni þegar talað við Sigmund Davíð Gunnlaugsson um morguninn. Bjarni sagðist tilbúinn að eiga í viðræðum við Sigurð Inga og það fyrirkomulag að hann tæki við af Sigmundi Davíð.

Þá hafði Sigmundur Davíð talað við Ólaf Ragnar og beðið hann um heimild til þingrofs. Bjarni sagði í viðtalinu að inngrip og neitun forsetans um þingrof hefði verið mjög mikilvægt - en hann hafði búist við því að Sigmundur ætlaði sér að „veifa því framan í hann," þegar hann segði honum að ekki yrði unað við óbreytt ástand.

Bjarni segir að á næstu dögum muni hann ræða við Sigurð Inga um áherslur og næstu verkefni ríkisstjórnarinnar - en auk þess segist hann ekki gera sérstaka kröfu um að hann taki sjálfur við embætti forsætisráðherra. Hann telur að stjórnin sjálf, stefna hennar og verk hafi ekki verið það sem gagnrýnt var, heldur skattaskjólsumræðan og Panamaskjölin svokölluðu.