Samkvæmt nýrri skýrslu OECD um íslenska hagkerfið eru horfurnar í íslenska hagkerfinu bjartar, en fjármagnshöft og launahækkanir umfram framleiðnivöxt eru áskoranir. Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, kynnti skýrsluna á blaðamannafundi í dag.

OECD spáir því að hagvöxtur hér á landi verði 4,3% í ár, sem er nærri því tvöfaldur sá vöxtur sem spáð er fyrir OECD-löndin í heild. Í skýrslunni segir að staðan í ríkisfjármálum hafi batnað, og einnig fjármál heimilanna. Í kynningu sinni tók Gurría fram að viðskiptakjör íslenska þjóðarbúsins hafi batnað, en fiskverð hefur hækkað á heimsmörkuðum þrátt fyrir að hrávöruverð hafi almennt lækkað. Þá segir hann að lágur ójöfnuður tekna á Íslandi sé af hinu góða.

Fjármálaráðherra fékk klapp á bakið

OECD lítur haftaafnámsáætlun stjórnvalda jákvæðum augum, en tekur fram að þörf sé á að tryggja þjóðhagslegan stöðugleika á meðan á afnáminu stendur til að lágmarka hættuna á greiðslujafnaðarvandamálum. Gurría tók það fram í kynningu sinni að hann teldi afnámsáætlunina vera varfærna, að því leyti að í henni væru ýmis tæki til að tryggja stöðugleika og lágmarka áhættu.

Gurría klappaði Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra á bakið að lokinni upptalningu sinni á því jákvæða við stöðuna í íslenska hagkerfinu, en Bjarni sat við hliðina á honum á meðan á kynningunni stóð. Að því loknu tók Gurría til við að telja upp helstu efnahagslegu áskoranirnar sem Ísland stendur frammi fyrir.

Þarf að auka framleiðni

Ein helsta áskorunin sem bent er á í skýrslu OECD er skortur á framleiðnivexti. Lagt er til að hömlur á frumkvöðlastarfsemi verði minnkaðar og ráðist í aðgerðir til að auka samkeppni. Auk þess þurfi að bæta menntun hér á landi og minnka brottfall úr skólum.

OECD telur miklar launahækkanir era vandamál fyrir Ísland á meðan framleiðnivöxtur er jafn hægur og raun ber vitni. „Þetta er einföld stærðfræði,“ segir Gurría um samhengi launahækkana og framleiðnivaxtar. Ef framleiðnivöxtur sé stöðugt lægri en vöxtur launa í landinu muni á endanum byggjast upp innra ójafnvægi sem hafi neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu Íslands.

Gurría mun í dag funda með ASÍ og Samtökum atvinnulífsins til að ræða þau skilaboð sem OECD hefur til aðila vinnumarkaðains.