Fjórir eigendur að 72% hlut jarðarinnar Grímsstaða á Fjöllum segjast orðnir fullsaddir á því að stjórnvöld hafi dregið þá á asnaeyrunum. Þeir ætla að auglýsa jörðina til sölu á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Íslenska ríkið á um 23% hlut á móti eigendunum fjórum í Grímsstöðum á Fjöllum.

Um þrjú ár eru síðan kínverski auðjöfurinn Huang Nubo lýsti yfir áhuga á því að kaupa 72% hlut í Grímsstöðum á Fjöllum. Málið hefur velkst um í kerfinu síðan þá og lítið þokast.

Jóhannes Haukur Hauksson, einn eigenda jarðarinnar, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að aðilar innan EES-svæðisins hafi sýnt mikinn áhuga á að kaupa hlut fjórmenninganna í jörðinni. Hann viti þó hvorki hverjir það séu né hverjar fyrirætlanir þeirra séu. „Við ætlum ekki að loka neinum möguleikum. Við ætlum bara að kanna hvað annað er í boði á evrópska efnahagssvæðinu,“ segir hann.