„Við höfum undirbúið þetta í marga mánuði. En engar viðræður hafa átt sér stað við stjórn Eik. Við gerum hluthöfum tilboð,“ segir Helgi S. Gunnarsson, forstjóri fasteignafélagsins Regins. Félagið gerði í dag hluthöfum Eikar tilboð í allt hlutafé fasteignafélagsins. Tilboðið nær til allra hluthafa þó þarf að lágmarki samþykki 68% eigenda hlutafjár í félaginu.

Bjóða yfirverð

Tilboðið byggir á því að hlutafé Regins verði aukið um 603 milljónir króna að nafnverði. Hver hlutur í Reginn er metinn á 13,53 krónur á hlut á meðalgengi fimm viðskiptadaga. Hver hlutur í Eik er í tilboðinu metinn á 5,05 krónur á hlut. Það er 21% yfir gengi bréfa Eikar í 750 milljóna króna hlutafjáraukningu félagsins í ágúst. Þar var gengið 4,15 krónur á hlut. Miðað við tilboðsverðið greiðir Reginn um 8,1 milljarð króna fyrir allt hlutafé í Eik.

Helgi segir ekki óeðlilegt að bjóða yfirverð fyrir bréfin því með viðskiptunum séu eigendur Eikar að eignast skráða pappíra. Um síðustu áramót voru hluthafar Eik fasteignafélags 30 talsins. Þrír hlutahafar áttu samkvæmt ársreikningi meira en 10% í félaginu, þ.e. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins átti 14,8%, Almenni lífeyrissjóðurinn 13,7% og Lífeyrissjóður verkfræðinga 13,2%.