Atvinnulífið er ekki á móti því að greiða skatta. Hins vegar vilja fyrirtækin sjá breikkun skattstofna, að undanþágur verði fáar og að skattkerfið sé gegnsætt.

Þetta sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, í inngangsorðu sínum á fundi samtakanna sem nú stendur yfir með formönnum stærstu stjórnmálaflokkanna.

Björgólfur fjallaði stuttlega um komandi kosningar og stöðu atvinnulífsins í aðdraganda þeirra. Hvað skattkerfið varðar sagði Björgólfur að skattkerfi þyrfti að hvetja fjárfestinga og auðvelda fyrirtækjum að ráða fólk til starfa.

„Það þarf einnig að hvetja fólk til að stofna ný fyrirtæki og að það fái að njóta þess þegar vel gengur. Það getur einnig verið liður í því að bæta hag almennings í landinu að endurskoða frá grunni flókið kerfi vörugjalda, tolla og innflutningshafta,“ sagi Björgólfur.

„Fjárfestingar hér eru nú minni en um áratugaskeið. Þetta á bæði við um fjárfestingar í atvinnulífinu og einnig um fjárfestingar hins opinbera. Afleiðingin er sú að framleiðslutækin og innviðirnir eru að ganga úr sér. Og eftir því sem lengri tími líður lengist sá tími sem það tekur að endurheimta fyrri styrk. Á meðan halda fyrirtæki í samkeppnislöndunum áfram að bæta sig, fjárfesta í nýrri tækni, stunda öfluga nýsköpun og vöruþróun. Þau sem ekki fylgja með dragast aftur úr.“

Þá sagði Björgólfur að besta leiðin til að auka hagvöxt í landinu til að auka fjárfestingar og þá sérstaklega í útflutningsframleiðslunni.

„Með auknum umsvifum í atvinnulífinu aukast einnig tekjur ríkis og sveitarfélaga. Arðbærar fjárfestingar eru besta og fljótvirkasta leiðin til að bæta hag fyrirtækjanna, hins opinbera og um leið alls almennings í landinu,“ sagði Björgólfur.

„Til þess að atvinnulífið geti sýnt styrk sinn er nauðsynlegt að fyrirtækin starfi í opnu og alþjóðlegu hagkerfi. Gjaldeyrishöftin draga úr verðmætasköpun fyrirtækjanna og fela í sér óbærilega mismunun milli aðila. Sumir fá að fjárfesta fyrir krónur sem fengnar eru hjá Seðlabankanum með verulegum afslætti . Aðrir þurfa að borga fyrir aðkeypta vinnu og þjónustu með fullu verði samkvæmt opinberu skráðu gengi. Fyrirtæki með rekstrarkostnað í erlendri mynt yfir ákveðnum mörkum eru undanþegin höftunum og það leiðir augljóslega til þess að þau leggja áherslu á að vera yfir þeim mörkum. Smám saman fjölgar þeim fyrirtækjum sem flytja starfsemi sína úr landi, og önnur skipta starfsemi sinni upp í innlendan hluta og erlendan. Kostnaður sem þetta veldur þjóðarbúinu er lítt sýnilegur en eykst jafnt og þétt. Því er það brýn nauðsynt að gjaldeyrishöftin verði afnumin sem fyrst. Það verður að horfa á vandann í heild en ekki einblína á svokallaðan snjóhengjuvanda þótt mikilvægur sé.“