Samkæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur verið gengið frá sölu á hlut Forsíðu ehf. í Árvakri ehf., útgáfufélagi Morgunblaðsins og 24 stunda. Kaupandi er Ólafsfell ehf. sem á fyrir 16,8% í Árvakri. Eftir kaupin verður hlutur Ólafsfells 33,5%. Þar með verður Ólafsfell, sem er í eigu Björgólfs Guðmundssonar, formanns bankastjórnar Landsbankans, stærsti hluthafinn í Ávakri en Útgáfufélagið Valtýr hf. fer með 20,3%. Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Promens, situr fyrir hönd Forsíðu í stjórn Árvakurs og Ólafur Jóhann Ólafsson, eigandi félagsins, er í varastjórn.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gæti þetta orðið vísir að frekari uppstokkun í hluthafahópi félagsins en forkaupsréttarákvæði eru ekki lengur í gildi meðal hluthafa. Björn Hallgrímsson ehf. fer með 16,7% hlut, MGM ehf. fer með 16,7% en það er í eigu Straums Burðaráss Fjárfestingarbanka, og Garðar Gíslason ehf. með 12,7%. Ef hlutur MGM er lagður við hlut Ólafsfells sést að Björgólfur er kominn með 50,2% í félaginu. Þess má geta að samkvæmt rekstrarreikningi nam tap af starfsemi Árvakurs 653 milljónum króna árið 2006. Afkoma félagsins fyrir síðasta ár liggur ekki fyrir.