Björgólfur Thor Björgólfsson vill að Róbert Wessman greiði 1,2 milljarða króna skuld sem féll í gjalddaga 30. september 2009. Róbert Wessman hefur stefnt Björgólfi Thor og félögum honum tengdum til greiðslu á 4,6 milljörðum króna vegna vanefnda á árangurssamningum.

Fréttatíminn greinir frá í dag, föstudag.

Félagið BeeTeeBee Ltd., sem er í eigu Björgólfs, lánaði félagi Burlington Worldwide Limited, sem er í eigu Róberts, hátt í milljarð króna árið 2005. Lánstími var tvö ár en var framlengdur til nóvember 2009. Mál Björgólfs gegn Róberti var þingfest 30. september sl. og kemur fram í stefnunni að Róbert Wessman sé persónulega ábyrgður sem lántaki með Burlington Worldwide, að því er Fréttatíminn greinir frá.

Ragnhildur Sverrisdóttir, talsmaður Björgólfs, segir í samtali við Fréttatímann að skuldin hafi í nóvember numið um 1,2 milljörðum króna. Innheimtutilraunir hafi ekki skilað árangri og því nauðsynlegt að höfða mál. Róbert Wessman lítur svo á að gengið hafi verið frá þessu láni með skuldajöfnun gegn kröfu Róberts um umsamda þóknun, að því er Árni Harðarson, lögmaður hans, segir. Róbert hefur stefnt Björgólfi Thor og félögum tengdum honum til greiðslu á 4,6 milljörðum króna.

Árangurssamningurinn sem um er að ræða þar var gerður þegar Björgólfur tók yfir Actavis árið 2007. Hann byggði á því að Róbert, sem forstjóri Actavis, fengi árangstengda greiðslu í lok árs 2009. Hann hætti á árinu 2008 sem forstjóri Actavis og hefur Björgólfi og Róberti ekki komið saman um hvort Róbert hafi hætt eða honum sagt upp.