Steingrímur Sævarr Ólafsson hefur sagt upp störfum sem ritstjóri Pressunnar og tekur Björn Ingi Hrafnsson við ritstjórastólnum.

Fram kemur í umfjöllun Eyjunnar um málið að Steingrímur hafi starfað hjá Vefpressunni, eiganda Pressunnar, frá upphafi, fyrst sem blaðamaður, svo fréttastjóri og síðan sem ritstjóri.

Björn Ingi er stjórnarformaður og útgefandi Vefpressunnar. Hann er jafnframt aðaleigandi fyrirtækisins ásamt Arnari Ægissyni, framkvæmdastjóra Vefpressunnar. Björn Ingi var á árum áður aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar í forsætis- og utanríkisráðuneytinu. Hann var jafnframt blaðamaður á Morgunblaðinu og um skeið ritstjóri Markaðarins, viðskiptablaðs Fréttablaðsins.

Skuldaði rúmar 700 milljónir

Björn Ingi kemur fyrir í Rannsóknarskýrslu Alþingis í tengslum við lán sem fjölmiðlamenn fengu hjá bönkunum. Caramba, félag Björns, fékk lánað hjá Kaupþingi vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi, Exista, Bakkavör og Spron. Félagið gerði jafnframt samning um kaup á hlutabréfum Exista fyrir 230 milljónir króna í september 2008. Í lok september 2008 námu skuldir félagsins 563 milljónum króna. Björn Ingi var ritstjóri Markaðarins þegar félag hans samdi um kaup á hlutabréfum Exista.

Eftir að Rannsóknarskýrslan kom út tilkynnti Björn Ingi, sem þá var ritstjóri Pressunnar, að hann hætti tímabundið.

Caramba er gjaldþrota og lauk skiptum í búið í mars. Lýstar kröfur námu 733,7 milljónum króna og vantaði mikið upp á að eignir dygðu upp í kröfur.