Bláa Lónið hf og Prokaria ehf hafa gert með sér nýjan samning um frekari rannsóknir á lífríki BLUE LAGOON jarðsjávarins. Markmið rannsóknarinnar er að einangra og greina líffræðilega virk, húðvæn efni BLUE LAGOON jarðsjávarins í þeim tilgangi að auka skilning á lækningamætti hans og renna frekari stoðum undir þann þekkingargrunn sem vöruþróun framleiðsla og þjónusta Bláa Lónsins byggir á.

Á síðasta ári vann líftæknifyrirtækið Prokaria lífríkisrannsókn fyrir Bláa Lónið hf og beitti til þess nýjustu DNA- aðferðum til að greina tegundasamsetningu í umhverfissýnum auk þess sem ræktanir á örverum úr lóninu og greiningar á þeim voru framkvæmdar. M.a. voru þá búnir til DNA- og örverugagnabanki úr lóninu sem notaðir verða í framhaldsrannsóknina.

BLUE LAGOON jarðsjórinn er hluti af einstöku vistkerfi og vitað er að ýmsar lífverur sem lifa við sérstök umhverfisskilyrði eins og þar eru mynda gjarnan verndandi efni inni í frumum sínum til að verja þær gegn skemmdum af völdum umhverfisþátta eins og hita eða seltu. Komið hefur í ljós í tilraunum að slík verndunarefni geta einnig haft verndandi áhrif á húðfrumur manna. Nokkrir flokkar slíkra efna eru þekktir og eru flest þeirra skyld algengum amínósýrum eða sykrum. Með þessari rannsókn er ætlunin að leita að slíkum efnum í lífríki lónsins. Slík þekking er mikilvæg fyrir rekstur Bláa Lónsins og getur nýst til frekari þróunarvinnu á sviði heilsutengdrar framleiðslu í framtíðinni.

Grímur Sæmundsen framkvæmdastjóri Bláa Lónsins hf. segir í frétt inni á heimasíðu Bláa Lónsins að samninginn sé mjög mikilvægur fyrir áframhaldi markaðssetningu og vöruþróun úr hráefnum úr BLUE LAGOON jarðsjónum. ?Góð áhrif virkra efna jarðsjávarins eru þekkt og það er einkar mikilvægt fyrir vöruþróun okkar að finna fleiri slík efni þá er sérstaklega áhugavert að skoða efni sem geta haft verndandi áhrif á húðfrumur."

Jakob K. Kristjánsson forstjóri Prokaria segist vera mjög ánægður með nýja samninginn við Bláa Lónið hf. ?Prokaria hefur byggt upp mikla þekkingu og færni í DNA greiningum á alls kyns umhverfissýnum, sem nýttist mjög vel í síðasta verkefni sem við unnum fyrir Bláa Lónið. Við erum því afar ánægð með að Bláa Lónið sýnir okkur það traust að gera við okkur nýjan og stærri samning um áframhaldandi rannsóknir á lífríki lónsins. Þetta verkefni er bæði skemmtilegt og vísindalega áhugavert og mun örugglega gefa af sér spennandi niðurstöður, sem nýtast í nýjar vörur fyrir Bláa Lónið. Jafnframt er mikilvægt fyrir Prokaria að geta selt innlendum fyrirtækjum þjónustu sína, sem síðan styrkir erlenda markaðssókn fyrirtækisins."