Bláa lónið hf. hagnaðist um 18,3 milljónir evra, eða sem nemur um 2,7 milljörðum króna, á síðasta ári, samanborið við um 1,5 milljarða króna hagnað árið 2022. Stjórn félagsins mun ekki leggja til arðgreiðslu vegna ársins 2023, að því er kemur fram í ársreikningi fyrir árið 2023 á heimasíðu fyrirtækisins.

Tekjur ferðaþjónustufyrirtækisins jukust um meira en 25% milli ára og námu 140 milljónum evra eða um tæplega 21 milljarði króna. Rekstrargjöld jukust um 21% milli ára og námu um 15 milljörðum króna. Meðalfjöldi ársverka var 734 í fyrra samanborið við 589 árið áður.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) Bláa lónsins nam því um 39 milljónum evra eða sem nemur 5,8 milljörðum króna.

Eignir samstæðunnar voru bókfærðar á 384 milljónir evra í árslok 2023 eða sem nemur hátt í 58 milljörðum króna. Eigið fé var um 219 milljónir evra eða um 33 milljarðar.

Hluthafar Bláa lónsins í árslok 2023

Hluthafi Eignarhlutur
Blávarmi slhf. 36,2%
Hvatning hf. 24,9%
Landsbréf Hvatning slhf. 18,0%
Stoðir hf. 7,3%
M4 ehf. 3,9%
Eðvard Júlíusson 2,5%
Bogmaðurinn ehf. 2,4%

Bláa lónið Lokað í 49 daga í fyrra

Í skýrslu stjórnar segir að jarðhræringar og eldsumbrot hafi sett mark sitt á starfsemi Bláa Lónsins á síðasta ári. Vegna stórrar jarðskjálftahrinu sem reið yfir í nóvember og eldgoss í desember var Bláa lóninu gert að leggja niður starfsemi á athafnasvæði sínu í Svartsengi. Samtals voru þetta 49 dagar í fyrra. Engar skemmdir hafi þó orðið á mannvirkjum Bláa Lónsins.

„Á síðustu misserum hefur safnast upp mikil vitneskja um jarðfræðilega hegðun óróasvæðisins á Reykjanesi og að mati vísindamanna eru líkur á eldgosi í Svartsengi litlar sem engar. Í skýrslu sem unnin var af sérfræðingum á Veðurstofu Íslands kemur m.a. fram að jarðskorpuhella sem liggur yfir Svartsengi hafi styrkst í þeim umbrotum sem átt hafa sér stað að undanförnu og líkur á eldgosi þar því minnkað enn frekar.“

Bláa lónið segist hafa eflt allar forvarnir til muna og unnið ítarlegt áhættumat fyrir starfsemina í Svartsengi.

„Stjórnendur Bláa Lónsins eru því bjartsýnir á að komi til frekari lokana vegna eldgosa muni þær vara stutt og ekki hafa veruleg áhrif á rekstur félagsins næstu misserin.“

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóra sölu, rekstrar og þjónustu Bláa lónsins, að félagið áætli að beinn kostnaður félagsins vegna lokana á undanförnum mánuðum sé um 5 milljarðar króna en sá kostnaður nær einnig yfir lokanir á fyrstu mánuðum þessa árs.

Opnuðu hótel í Kerlingafjöllum og eignuðust Íslenskar heilsulindir að fullu

Síðasta sumar var tilkynnt um breytingar á samstæðu Bláa lónsins. Þær fólu m.a. í sér að starfsemi félagsins í Svartsengi fékk nafnið Bláa Lónið Svartsengi ehf.

Í byrjun júlí hófst rekstur á nýju hóteli samstæðunnar í Kerlingarfjöllum. Þá keypti samstæðan allt hlutafé í Íslenskum heilsulindum sem á m.a. eignarhluti í Jarðböðunum á Mývatni, Fontana á Laugarvatni og Sjóböðunum á Húsavík, en fyrir átti Bláa lónið 60% hlut í félaginu.

Undirbúningur að uppbyggingu hótels, baðstaðar og gestastofu í Þjórsárdal stendur yfir. Jarðvegsframkvæmdir hófust undir lok árs og stjórnendur Bláa lónsins ráðgera að byggingaframkvæmdir hefjist á árinu 2024.