Bláa lónið opnar í haust nýtt upplifunarsvæði, hágæða hótel og veitingastað. Fyrirtækið undirbýr nú ráðningar á starfsfólki í tengslum við verkefnið. Á annað hundrað fjölbreytt störf verða til í tenglsum við uppbygginguna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Framkvæmdir við bæði upplifunarsvæðið og hótelið eru veg á vel komnar. Hótelið verður staðsett í hraunbreiðunni vestan við núverandi lón. Nafn hótelsins er Moss Hotel og spa, upplifunarsvæðið mun heita Lava Cove. Nýr hágæðaveitingastaður, Moss Restaurant, verður starfræktur á hótelinu.

Leita af 165 starfsmönnum

„Um 165 manns munu starfa við Lava Cove og hótelið og verða störfin afar fjölbreytt. Á næstu dögum mun Bláa lónið auglýsa eftir móttökustjórum og móttökustarfsmönnum, stjórnendum og starfsfólki í herbergisþjónustu- og þrifum, einkaþjónum og starfsfólki gestamóttöku. Þjálfun og starfsþróun eru mikilvægir þættir í mannauðsstefnu Bláa lónsins og fá allir starfsmenn þjálfun er lýtur að hágæðaþjónustu.

Bláa Lónið er í dag eitt þekktasta vörumerki Íslands og hefur National Geographic valið Bláa lónið sem eitt af 25 undrum veraldar.

Moss Hotel  verður 62 herbergja  hótel og verður í hærri gæðaflokki en áður hefur þekkst á Íslandi. Öll þjónusta og aðbúnaður miða að því að gestirnir njóti þess besta í mat, gistingu og upplifun í umhverfi Bláa lónsins,“ segir í tilkynningunni.

Fara undir yfirborð jarðar

Gestir sem sækja heim Lava Cove koma til með að fara undir yfirborð jarðar þar sem þeir munu njóta spa meðferða og upplifunar sem byggir á virkum efnum Bláa lónsins. Þaðan hafa gestir aðgang að nýju lóni.

Dagný Pétursdóttir framkvæmdastjóri Bláa lónsins segir: „Opnunin á nýju upplifunarsvæði og hóteli næsta haust verður mikilvægur áfangi í starfsemi Bláa Lónsins. Með þessu erum við að þróa og breikka starfsemi okkar.  Lykillinn að þeim árangri sem við höfum náð á undanförnum árum byggir á einstakri náttúru Bláa lónsins og einlægum vilja starfsfólks okkar til að veita  gestum frábæra þjónustu og skapa ógleymanlegar minningar.  Á næstu vikum munum við leita að fólki sem hefur brennandi áhuga á að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu með okkur.“

Hér má sjá fleiri myndir:

Lava Cove - Bláa lónið
Lava Cove - Bláa lónið
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Moss Restaurant - Bláa lónið
Moss Restaurant - Bláa lónið
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Cove Lagoon - Bláa lónið
Cove Lagoon - Bláa lónið
© Aðsend mynd (AÐSEND)