*

laugardagur, 25. september 2021
Erlent 3. ágúst 2021 08:55

Black­stone kaupir fyrir­tæki Wit­her­spoon

Blackstone mun fjármagna kaup á fjölmiðlafyrirtæki Reese Witherspoon sem er metið á 110 milljarða króna.

Ritstjórn
Reese Witherspoon
epa

Eigendur fjölmiðlafyrirtækisins Hello Sunshine, sem var stofnað af Reese Witherspoon, hafa gengið frá sölu á ráðandi hlut í fyrirtækinu. Kaupsamningurinn verðmetur fyrirtækið á tæplega 900 milljónir dala eða um 110 milljarða króna. WSJ greinir frá.

Kaupandinn er nýtt ónefnt fyrirtæki sem er rekið af fyrrum stjórnendum Disney, þeim Tom Staggs og Kevin Mayer en sá síðarnefndi starfaði sem forstjóri samfélagsmiðilsins TikTok um þriggja mánaða skeið á síðasta ári. Fjárfestingarsjóðurinn Blackstone er sagður leggja meira en 500 milljónir dala til að fjármagna kaupin.

Fjármagnið verður meðal annars nýtt til að kaupa hlutafé af hluthöfum á borð við AT&T og Emerson Collective. Witherspoon og aðrir stjórnendur Hello Sunshine munu framselja hlut sínum fyrir hlutafé í hinu nýja fyrirtæki sem Blackstone stendur að baki.

Hello Sunshine hefur framleitt HBO þættina Big Little Lies og Apple+ þættina The Morning Show sem Witherspoon og Jennifer Aniston fara með aðalhlutverkin í.

Ásamt framleiðslu á sjónvarpsþáttum er Hello Sunshine með vinsælan bókaklúbb, Reese‘s Book Club, sem mælir mánaðarlega með bókum þar sem konur eru aðalsögupersónur. Reese Witherspoon hefur notað samfélagsmiðla, líkt og Instagram, til að auglýsa bækurnar. Hello Sunshine fær þóknun fyrir kaup meðlima klúbbsins.