Litháíska félagið Avia Solutions Group (ASG) og íslenska félagið BB Holding ehf. hafa gert með sér samning um kaup þess fyrrnefnda á öllu hlutafé í Bláfugli ehf (Blubird Nordic) í eigu þess síðarnefnda. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda og Samgöngustofu. Kaupverð er sagt vera trúnaðarmál í fréttatilkynningu frá félögunum.

Avia Solutions Group er stærsta fyrirtæki Mið-og Austur Evrópu í flugtengdri þjónustu. ASG er með um 90 skrifstofur og starfsstöðvar í um 50 löndum. Hjá félaginu og dótturfyrirtækjum starfa um 5.000 manns, tekjur 2019 námu um 1,5 milljörðum evra, en það starfar á flestum sviðum flugtendrar starfsemi.

Dótturfélög Avia Solutions Group starfrækja m.a. flugvélaleigu (e. ACMI), viðhald flugvéla (e. MRO) og kaup og sölu flugvéla. Þá býður félagið upp á nám og námskeið fyrir flugmenn og flugfreyjur, m.a. í flughermum, starfrækir fjölda viðhaldsstöðva, leiguflugmiðlun, eldsneytissölu, flugafreiðslustöðvar og fleira tengt flugi. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Vilnius í Litháen.

Gediminas Ziemelis
Gediminas Ziemelis
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Við munum leggja metnað í að stækka og styrkja Bláfugl á komandi mánuðum. Með þessari fjárfestingu erum við komin í  rekstur venjulegra fraktflugvéla (e. Narrow body freighter aircraft). Við erum nú þegar eitt stærsta blautleigufyrirtækið í Evrópu og vildum styrkja okkur í fraktflutningum,“ segir Gedimins Ziemelis, stofnandi og stjórnarformaður ASG.

„Í dag erum við í ASG með 7 flugekstrarleyfi (e.AOC) í mörgum löndum og við hyggjumst ná fram samlegð með kaupum á Bluebird, meðal annars í nýtingu mannafla, viðhaldi og leigukostnaðar flugvéla. Við erum að styrkja okkur frekar á fraktflugsmarkaði með þessari fjárfestingu og höfum mikla trú á þeim möguleikum sem fyrirtækinu standa opnir.“

Með blautleigu er verið að þýða beint enskt hugtak sem vísar í það að leigjendur flugvéla leigi hvort tveggja flugvél og áhöfn og haldi yfirumsjón með flugvélinni, en í þá samsvarandi þurrleigu, þá er það leigjandans að manna flugvélina. Eigendur BB Holding eru þeir Steinn Logi Björnsson, Hannes Hilmarsson, Geir Valur Ágústsson, Stefán Eyjólfsson og Helgi Hilmarsson

„Við erum ánægðir með að ASG kaupi Bláfugl og teljum að félaginu sé vel komið hjá jafn öflugum eigenda. Við skiljum vel við félagið og erum þess fullvissir að félaginu, starfsmönnum og viðskiptavinum, farnist mjög vel með nýjum eiganda,” er haft eftir eigendum BB Holding.

Bláfugl starfar undir hjáheitinu Bluebird Nordic. Félagið var stofnað árið 1999 og hóf flugstarfsemi árið 2001 með íslenskt flurekstrarleyfi. Félagið hefur verið með allt að 8 B737 fraktflugvélar í rekstri.

Bluebird Nordic starfar einkum á þessum svokallaða blautleigumarkaði (e. Wet Lease) erlendis og flýgur þá fyrir önnur félög s.s. DHL, UPS og ASL/FedEx og fleiri. Þá starfar Bláfugl/Bluebird Nordic einnig á fraktmarkaði til og frá Íslandi með áframtengingar um allan heim einkum með UPS, Emirates og Aer Lingus. Hjá félaginu starfa um 100 manns.

Ráðgjafar Bláfugls við söluna voru Barons Captial í Genf og BBA//Fjeldco í London auk þess sem KPMG veitti aðstoð.