*

þriðjudagur, 29. september 2020
Innlent 29. apríl 2020 20:14

Blása til sóknar í heimsfaraldri

Suitup Reykjavik mun á næstunni flytja í nýtt og stærra verslunarhúsnæði. Hefja á sama tíma sölu á eigin tilbúinni jakkafatalínu.

Sveinn Ólafur Melsted
Um nokkurra ára skeið voru stofnendurnir og eigendurnir, Egill Ásbjarnarson og Jökull Vilhjálmsson, einu starfsmenn Suitup Reykjavik. Síðasta sumar stækkaði svo teymið er Oddur Sturluson gekk til liðs við þá félaga og varð um leið meðeigandi..
Eyþór Árnason

Herrafataverslunin Suitup Reykjavik mun á næstunni flytja í nýtt og nær tvöfalt stærra verslunarrými í Bolholti 4, en núverandi verslunarrými verslunarinnar er staðsett úti á Granda. Samhliða flutningum hyggst Suitup byrja að bjóða upp á úrval af eigin tilbúinni jakkafatalínu, en hingað til hefur Suitup sérhæft sig í sérsaumi á jakkafötum og öðrum tengdum fatnaði. Sérsaumurinn verður sem fyrr áfram í boði. Auk þess mun verslunin byrja að bjóða upp á úrval af öðrum tilbúnum fatnaði sem Suitup framleiðir undir eigin merki sem og frá erlendum merkjum sem ekki hafa verið fáanleg hér á landi áður. Stefnt er á að nýja verslunin verði opnuð í byrjun maí.

Egill Ásbjarnarson, einn eigenda Suitup, segir að með þessu sé tveggja ára gamall draumur að rætast.

„Á þessum tveimur árum hefur mikil vinna farið í að undirbúa þetta og nú loks er draumurinn að verða að veruleika. Okkar helsta hugsjón var að búa til nýtt jakkafatasnið frá grunni sem er sérstaklega hannað fyrir íslenska karlmenn, en við höfum á síðustu sex árum sankað að okkur greinargóðum upplýsingum um það hvernig íslenskir karlmenn eru byggðir. Hér á Íslandi eru suður-evrópsk snið mest áberandi en þau henta ekki endilega íslenskum karlmönnum jafn vel og mönnum frá þeim þjóðum sem slík snið eru ætluð."

Heilluðu stóran jakkafataframleiðanda

Egill segir að mikil vinna hafi farið í að finna rétta framleiðendur og birgja til að kaupa efni af. Héldu Egill og meðeigandi hans, Jökull Vilhjálmsson, m.a. í mánaðarreisu til Ítalíu auk vinnuferðar til Kína.

„Við ferðuðumst um nær alla Ítalíu og tókum í raun stígvélið eins og það leggur sig, fyrir utan hæl og tá. Síðan ferðuðumst við einnig til Kína þar sem við hittum mikið af framleiðendum og skoðuðum margar mismunandi verksmiðjur. Við vorum svo lánsamir þar að ná að koma okkur að hjá stórum jakkafataframleiðanda sem framleiðir föt fyrir mörg af stærstu fatamerkjum í Evrópu. Miðað við hvað þetta er stór og vönduð verksmiðja var ekki hlaupið að því fyrir okkur að komast að hjá svo stórum og virtum framleiðanda. Framkvæmdastjóra fyrirtækisins leist vel á okkar hugmyndir og var til í að gera undantekningu fyrir okkur, enda er þetta framleiðandi sem er ekki vanur að taka við litlu magni af pöntunum."

Egill bendir á að með því að standa að eigin framleiðslu stjórni Suitup framleiðslukeðjunni nær alfarið sjálfir, sem geri þeim kleift að bjóða upp á meiri gæði og lægra verð.

„Þetta gerir okkur kleift að bjóða upp á mun betri vöru á mun hagstæðara verði, þar sem við höfum stytt framleiðslukeðjuna talsvert með því að versla beint við birgja og framleiðanda, og selja svo undir eigin merki."

Sókn er besta vörnin

Að sögn Egils kom ekki til greina að taka fótinn af bensíngjöfinni þrátt fyrir að COVID-19 hafi borist hingað til lands.

„Við settum alltaf stefnuna á að opna núna í maí og þrátt fyrir að COVID-19 hafi komið upp ákváðum við að sækja heldur fram fremur en að pakka í vörn. Hluti af tilbúnu jakkafötunum er þegar kominn til landsins. Flæðið af vörum til okkar hefur þó tafist aðeins vegna veirunnar en við sjáum fyrir endann á þeim töfum. Um það leyti sem við stefnum á opnun verður vonandi búið að slaka á samkomubanninu og hlökkum við mikið til að taka á móti viðskiptavinum og sýna þeim afrakstur vinnu undanfarinna tveggja ára.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Svava Johansen, eigandi NTC, segir að fyrirtækið hefði vart lifað af án hlutabótaleiðarinnar, enda salan dregist saman um rúm 80% frá upphafi samkomubanns.
  • Breskt félag krefur Icelandair um rúmlega milljarð króna vegna tjóns á Keflavíkurflugvelli.
  • Farið yfir stöðu mála hjá Icelandair, en flugfélagið þarf sárlega á lausafé að halda.
  • Það stefnir í að núverandi ársfjórðungur verði sá versti í manna minnum hjá bandaríska hagkerfinu.
  • Bjarni Ákason aðaleigandi Bako Ísberg, og áður framkvæmdastjóri Epli, gefur góð ráð um rekstur og kaup og sölu fyrirtækja.
  • Fjallað er um nýjustu bók Sigurðar Más Jónssonar sem ber titilinn Afnám haftanna.
  • Dr. Friðrik Larsen gefur ráðleggingar um hvernig skuli meðhöndla vörumerki á krepputímum.
  • Gísli Tryggvi Gíslason nýr forstöðumaður stafrænnar tækni hjá Samkaupum segir frá því hvernig á að vinna sig upp metorðastigann.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um vanda ferðaþjónustunnar.
  • Óðinn skrifar um efnahagsveiruna sem nú breiðir sér út.
Stikkorð: verslun COVID-19 Suitup Reykjavik